Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Kvörtun vegna brota á stjórnsýslulögum - rafræn skilríki

[…]
[…]
[…]
[…]

Reykjavík 2. júlí 2013
Tilv.: FJR13050028/16.2.1


Ráðuneytið hefur móttekið erindi yðar sem dagsett er 3. maí 2013. Í erindinu er borin upp kvörtun vegna brota á 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fram kemur að embætti ríkisskattstjóra geri þá kröfu að notendur svokallaðs Dk- framtalsforrits noti rafræn skilríki við framtalsskil. Til samanburðar sé ríkisskattstjóri með framtalsforrit á sinni heimasíðu og við skil með því forriti sé ekki gerð krafa um rafræn skilríki. Þá segir að þetta skilyrði ríkisskattstjóra um notkun rafrænna skilríkja valdi notendum kostnaði og óþægindum og það valdi því að þeir sem noti Dk- framtalsforrit njóti ekki jafnræðis við þá sem skila á heimasíðu ríkisskattstjóra og slíkt sé brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga skv. 11. gr. laga nr. 37/1993. Loks er farið fram á það að ráðuneytið skoði málið og nái fram viðeigandi leiðréttingu á stöðu aðila með því að embætti ríkisskattstjóra hætti að krefjast notkunar á rafrænum skilríkjum við skil með Dk-framtalsforriti.

Í tilefni af erindi yðar óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum um málið frá embætti ríkisskattstjóra. Sérstaklega var óskað eftir upplýsingum um þann kostnað sem fellur til vegna öflunar og notkunar á rafrænum skilríkjum.

Í svörum ríkisskattstjóra komu m.a. fram þær upplýsingar að engum framteljanda er gert skylt af hans hálfu að nota Dk-framtalsforrit heldur er notkun annarra forrita möguleg þar sem ekki er gerð krafa um notkun rafrænna skilríkja. Notkun hins svokallað Dk- forrits er því valkvæð. Til að unnt sé að skila framtölum gegnum framtalsforrit verður að gera miklar kröfur um auðkenni og veflykill RSK er þar ekki fullnægjandi skilamáti enda gerir framleiðandi og söluaðili Dk- forritsins ekki ráð fyrir öðru en rafrænum skilríkjum við skil.

Varðandi kostnað við öflun og notkun rafrænna skilríkja þá er hann í öllum tilvikum óverulegur. Rafræn skilríki er í sumum tilvikum hægt að fá ókeypis en ef notandi kýs hin svokölluðu sérstöku rafrænu skilríki (starfsskilríki án fjárhags) þá kosta þau kr. 10.990 á ári. Lesari fyrir slík skilríki kostar nálægt kr. 1.500 en fæst oft án greiðslu. Ríkisskattstjóri gerir ekki kröfu um að starfsskilríki séu notuð við skil framtala í gegnum Dk hugbúnaðinn. Viðkomandi notandi getur því allt eins notað einkaskilríki sín á debetkorti. Því fylgir enginn aukakostnaður umfram kostnað við debetkortið sjálft. Notandi getur þannig komist hjá viðbótarkostnaði við notkun skilríkja við rafræn framtalsskil gegnum Dk hugbúnaðinn, kjósi hann það.

Af erindi yðar verður ekki fyllilega ráðið hvaða óþægindi fylgja því sérstaklega að nota rafræn skilríki. Varðandi umfjöllun um það að senda beri fagaðila afrit af öllum bréfum sem ríkisskattstjóri sendir hans umbjóðendum þá hefur slík krafa ekki lagastoð. Sú venja sem skapast hefur að umboðsmaður skattaðila fái afrit af bréfum ríkisskattstjóra er enda háð því skilyrði að umboðsmennska sé ótvíræð.

11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefur að geyma jafnræðisreglu sem er önnur tveggja efnisreglna þeirra laga. Hin er meðalhófsreglan sem fjallað er um í 12. gr. laganna. Jafnræðisreglan og meðalhófsreglan eru báðar grundvallarreglur sem stjórnvöldum ber að gæta að við allar stjórnvaldsákvarðanir. Um efnisinntak jafnræðisreglunnar mætti fjalla í löngu máli en í grunninn felst hún í því að þegar stjórnvald hefur byggt ákvörðun á tilteknu sjónarmiði leiðir reglan til þess að leysa ber sambærilegt mál á grundvelli sama eða sömu sjónarmiða þegar slíkt mál kemur aftur til úrslausnar á grundvelli sömu réttarheimildar (Páll Hreinsson, Stjórnsýslulögin skýringarrit, útg. 1994, bls. 132).

Það er afstaða ráðuneytisins að ekki geti verið um brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga að ræða þegar valkvæð notkun framtalsforrita er annars vegar. Í þeim tilvikum er ekki um það að ræða að verið sé að taka stjórnvaldsákvörðun í einstöku máli heldur er verið að bjóða upp á ólíkar leiðir við framtalsskil og þar með er það í höndum viðkomandi einstaklings/þjónustuaðila að velja á milli ólíkra kosta út frá sínum aðstæðum eða þörfum. Þá telur ráðuneytið tilefni til að árétta að kostnaður við öflun og notkun rafrænna skilríkja er óverulegur og í sumum tilvikum enginn. Loks verður hvorki af erindinu ráðið að óþægindi við notkun rafrænna skilríkja séu umfram það sem eðlilegt getur talist né að kröfur um úrbætur eigi sér lagastoð.

Rafræn skil á framtölum eru í stöðugri þróun og af hálfu skattyfirvalda er leitast við að auka og bæta þjónustu við gjaldendur og þeirra þjónustuaðila eftir því sem tækifæri gefast og árlega verða einhverjar framfarir á þessu sviði.


Fyrir hönd ráðherra





Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum